Lög félagsins

1. grein

Félagið heitir Starfsmannafélag Fjallabyggðar, skammstafað St. Fjall.

2. grein.

Félagið er hagsmunafélag allra starfsmanna í þjónustu sveitarfélagsins Fjallabyggðar, stofnana hans og fyrirtækja sem eru tengd honum. Félagið vinnur að bættum launa- og ráðningarkjörum þeirra jafnframt því sem það vill auka samhug og samstarf starfsmanna í öllum greinum.

3. grein

Rétt til inngöngu hafa allir þeir opinberir starfsmenn sem taka laun samkvæmt kjarasamningi sem Starfsmannafélag Fjallabyggðar hefur gert við Fjallabyggð, fjármálaráðuneyti eða aðra þá sem þessir aðilar hafa falið samningsumboð fyrir sína hönd.
Ennfremur geta þeir sem vinna hjá sjálfseignarstofnunum sem eru í lögsagnarumdæmi Fjallabyggðar og vinna í almennings þágu, öðlast félagsréttindi að mati félagsstjórnar er þeir hafa gengt starfi í a.m.k. 3 mánuði, enda hafi þeir verið ráðnir til starfa eftir gildandi launasamþykkt eins og hún er á hverjum tíma. Þá geta þeir sem starfa í þjónustu fyrirtækja sem tengd eru bænum eða með öðrum nánum tengslum sem stjórn félagsins viðurkennir og félagsfundur staðfestir, gengið í félagið.
Gangi maður úr þjónustu bæjarins eða þess fyrirtækis sem hann hefur unnið við missir hann þegar félagsréttindi. Verði sami maður aftur ráðinn til starfa hjá bæjarfélaginu eða sama fyrirtæki, getur hann fengið inngöngu í félagið þegar hann hefur tekið við starfi sínu og öðlast hann þá félagsréttindi á ný en fyrir tímabilið sem hann var ekki félagi falla niður réttindi til sjóða og annarra félagshagsmuna.
Verði félagsmenn atvinnulausir skulu þeir halda félagsaðild og þeim réttindum sem er á færi félagsins að veita á meðan þeir eru atvinnulausir og sannarlega ekki með félagsaðild að öðru stéttarfélagi. Atvinnulausir greiði félagsgjald en heimilt er að fella það niður.
Sé einhverjum félagsmanni sagt upp starfi af ástæðum sem hann telur óvenjulegar eða engar getur hann falið stjórn félagsins að gera tilraun til endurráðningar enda sé stjórnin sammála um að taka upp slíkt mál.
Félagsmaður sem lætur af störfum fyrir aldurssakir eða af sjúkdómsástæðum og hefur unnið sér rétt til ellilauna eða lífeyris, hefur öll hin sömu réttindi og skyldur gagnvart félaginu og áður, þó er hann undanþeginn því að greiða árstillög til félagsins.

4. grein

Framan við meðlimaskrá félagsins skal skrá yfirlýsingu þess efnis, að hver sá, sem skrifar nafn sitt í félagsskrána undirgengst lög og reglur félagsins og öðlast þar með öll réttindi félgsmanna.
Félagsstjórn skal á næsta félagsfundi skýra frá hverjir hafi gengið í félagið á milli funda og gefa upplýsingar um störf þeirra.


5. grein

Allir þeir sem ganga úr félaginu skulu senda skriflega úrsögn og tilgreina ástæður fyrir úrsögninni. Skal stjórn félagsins tilkynna úrsögnina á aðalfundi. Úrsögn öðlast gildi þegar stjórnin hefur veitt henni viðtöku og tekið ástæður gildar, enda sé úrsegjandi skuldlaus við félagið fyrir yfirstandandi ár.
Stjórn félagsins getur hvenær sem er vikið félagsmanni úr félaginu ef hann gerist brotlegur gagnvart lögum eða samþykktum félagsins. Brottvikningin skal á sama hátt tilkynnt á aðalfundi, enda á hinn brottvikni kröfurétt til þess að brottvikningarástæður stjórnarinnar verði bornar undir aðalfund til úrskurðar.
Félagsmaður, sem ekki hefur greitt áfallið árstillag fyrir 1. desember, en hefur þó verið krafinn um það af gjaldkera, hefur fyrirgert félagsréttindum sínum. Missi hann félagsréttindi sín vegna skulda, öðlast hann þau ekki aftur nema hann greiði skuld sína við félagið. Þeir sem ganga úr félaginu eiga ekki tilkall til sameiginlegra sjóða eða annarra eigna félagsins.

6. grein

Stjórn félagsins er skipuð þremur mönnum, formanni, gjaldkera og ritara og þremur varamönnum og skulu þeir kosnir skriflega og bundinni kosningu annað hvert ár, þannig að annað árið eru formaður, ritari og einn varamaður kosinn, en hitt árið gjaldkeri, varaformaður og einn varamaður.
Aðalfundur kýs tvo skoðunarmenn reikninga og skal annar þeirra vera löggildur endurskoðandi.

7. grein

Formaður félagsins kallar saman félagsfund og stjórnarfundi og stjórnar þeim, þó er honum heimilt að fela varaformanni fundarstjórn, og að skipa fundarstjóra á félagsfundum.
Í fjarveru formanns gegnir varaformaður öllum sömu störfum og formaður.

Ritari heldur gerðarbók og færir í hana ágrip af því sem á félgasfundum og stjórnarfundum gerist. Hann annast bréfaskriftir fyrir félagið ásamt formanni. Hann geymir skjöl þess og gögn.

Gjaldkeri varðveitir sjóði félagsins og aðra fjármuni og skal allt handbært fé vera geymt í sparisjóði eða banka. Hann innheimtir árstillög félagsmanna og greiðir alla reikninga eftir að formaður hefur ávísað þeim.
Gjaldkeri leggur fram endurskoðaða ársreikninga á aðalfundi.

8. grein

Stjórn félagsins skal boða til félagsfunda svo oft sem henni þykir þurfa og skal aðalfundur haldinn fyrir lok maímánaðar ár hvert.
Sjö félagsmenn geta krafist þess að fundur verði haldinn í félaginu og skulu þeir tilgreina fundarefni. Er stjórninni þá skylt að kalla saman fund innan 14 daga.

9. grein

Félagsfundi skal boða með minnst sólarhrings fyrirvara með heimsendu fundarboði til hvers félagsmanns og uppfestri auglýsingu. Aðalfund skal boða með 7 daga fyrirvara og jafnframt skal tilgreina aðalfundarefni í fundarboði. Allir félagsfundir eru lögmætir ef boðaðir hafa verið samkvæmt fyrirmælum þessarar greinar. Takist ekki að ljúka aðalfundarstörfum á einum fundi, skal boða til framhaldsaðalfundar með sama hætti.

10. grein

Þessi eru sérstök verkefni aðalfundar:

1. Stjórn félagsins gefur skýrslu um starfsemi félagsins yfir síðastliðið ár.

2. Lagðir fram til úrskurðar endurskoðaðir reikningar félagsins fyrir síðasta ár.

3. Tekin ákvörðun um tillögur til breytinga á lögum þessum enda hafi tillögur til breytinga borist stjórn félagsins fyrir apríllok og skulu þær vera aðgengilegar fyrir félagsmenn í að minnsta kosti 7 daga fyrir aðalfund.

4. Kosin stjórn samkv. 6. gr.

5. Kosnir endurskoðendur samkv. 6. gr.

6. Kosnir fulltrúar á þing B.S.R.B.

7. Önnur mál, svo sem á almennum fundum.

11. grein

Fundum skal stjórnað eftir venjulegum fundarsköpum. Einfaldur meirihluti ræður úrslitum mála, nema við lagabreytingar, þá þarf 3/5 greiddra atkvæða fundarmanna til þess að breytingin sé löglega samþykkt.

12. grein 

Reikningsár félagsins er almanaksárið. Árstillag skal ákveða á hverjum aðalfundi en gjalddagi árstillaga er 1. apríl.
Sé árstillag eigi greitt á réttum gjalddaga hefur gjaldkeri rétt og skyldu til að taka af kaupi félagsmanna á næsta útborgunardegi þar á eftir.

13. grein

Komi fram tillaga um að leysa félagið upp verður hún eigi tekin til greina nema hún sé studd hið minnsta af 1/4 hluta félagsmanna. Skal þá höfð um hana allsherjaratkvæðagreiðsla í félaginu.Tillagan telst því aðeins samþykkt að hún hljóti 2/3 hluta greiddra atkvæða.
Ef félagið leysist upp ber þáverandi stjórn félagsins skylda til að afhenda bæjarstjórn Fjallabyggðar eignir þess og skjöl til varðveislu og endanlegrar ráðstöfunar ef félagið verður ekki endurreist áður en 10 ár eru liðin frá því að stjórn þess skilaði af sér.
Félagið telst leyst upp ef starfsemi þess liggur niðri í 5 ár.

Fyrst samþykkt á stofnfundi 19. maí 1983,

Breytt á aðalfundi 30. maí 2007