Orlof að eigin vali 2018

Nú er búið að opna aftur fyrir möguleikana á að sækja um ,,Orlofi að eigin vali” 


Styrkurinn í ár 23.000 kr. og félagsmenn geta notað styrkinn til að niðurgreiða ýmislegt af sínum orlofsútgjöldum, t.d. flugi, gistingu og/eða leigu farartækja, svo eitthvað sé nefnt. Ekki er hægt að nota styrkinn til að niðurgreiða það sem í boði er í orlofspakka Samflotsfélagana.

Félagsmaður getur sótt um á orlofsvefnum hér við hliðina. Staðfestingin/svar við umsókninni kemur ekki um hæl, heldur í tölvupósti innan við sólahring eftir að umsóknin fer inn. 
En til þess að fá styrkinn greiddan þarf að koma eða senda greiðslukvittunina og samþykktinni frá Samfloti til gjaldkera félagsins hennar Hafdísar Jónsd.

Sjá nánar í Orlofsblaðinu sem kemur til ykkar á allra næstu vikum.

Guðbjörn Arngrímsson

formaður

Laun bæjarstarfsmanna hækka um 1,4%

 

Samkomulag um framhald launaþróunartryggingar opinberra starfsmanna sem eru í BSRB eða Alþýðusambandi Íslands var undirritað á skrifstofu BSRB í hádeginu í dag. Laun félaga í BSRB sem starfa hjá sveitarfélögum munu hækka um 1,4 prósent frá 1. janúar 2018 vegna samkomulagsins.

Laun félaga í ASÍ sem starfa hjá sveitarfélögum munu einnig hækka um 1,4 prósent og laun félaga í ASÍ sem starfa hjá ríkinu hækka um 0,5 prósent frá sama tíma. Þessar hækkanir koma til viðbótar við samningsbundnar hækkanir. Samkomulagið um útfærslu launaþróunartryggingar er gert í kjölfar rammasamkomulags aðila vinnumarkaðarins sem gert var í október 2015.

Aðild að samkomulaginu eiga íslenska ríkið, Samband íslenskra sveitarfélaga, Reykjavíkurborg, ASÍ, BSRB og Samtök atvinnulífsins. Í rammasamkomulaginu er kveðið á um að starfsmönnum hjá ríki og sveitarfélögum verði bætt launaskrið á almennum vinnumarkaði verði það meira en hjá hinu opinbera. Með því er ætlunin að tryggja að laun opinberra starfsmanna sitji ekki eftir í almennri launaþróun.

Önnur mæling af þremur

Í samkomulaginu sem undirritað var í dag er horft til launaþróunar frá nóvember 2013 til nóvember 2017. Þetta er í annað skipti sem launaþróunin er mæld. Eftir síðustu mælingu, frá 2013 til 2016, voru laun félagsmanna aðildarfélaga BSRB sem starfa hjá ríkinu hækkuð um 1,3 prósent. Nú hækka laun starfsmanna hjá sveitarfélögum um svipað hlutfall, eða 1,4 prósent.

Laun félaga í aðildarfélögum BSRB sem starfa hjá ríkinu hækka ekki að þessu sinni þar sem laun þeirra hafa hækkað meira en sem nemur hækkunum á almennum vinnumarkaði á tímabilinu. Þriðja og síðasta mælingin á launaskriði, vegna ársins 2018, verður gerð snemma á næsta ári.

 

Laun ríkisstarfsmanna hækka um 1,3%

Laun félagsmanna St. Fjallabyggðar sem starfa hjá ríkinu verða hækkuð um 1,3 prósent að meðaltali til að bæta þeim upp launaskrið á almennum vinnumarkaði. Hækkunin er afturvirk frá 1. janúar 2017 og ætti að koma til framkvæmdar um næstu mánaðarmót. 

BSRB undirritaði samkomulag um launaþróunartryggingu opinberra starfsmanna sem eru félagar í aðildarfélögum bandalagsins í desember síðastliðnum. Ft. Fjall. hefur gengið frá samkomulagi við ríkið um þessa hækkun.

Markmiðið með launaþróunartryggingunni er að tryggja að opinberir starfsmenn sitji ekki eftir á meðan launaskrið hækkar meðallaunin á almennum vinnumarkaði. Í rammasamkomulagi aðila vinnumarkaðarins frá árinu 2015 er kveðið á um að þeim sem starfa hjá ríki og sveitarfélögum verði bætt það launaskrið sem verður á almenna vinnumarkaðinum umfram það sem kann að verða á opinbera markaðinum.

Aðild að samkomulaginu eiga íslenska ríkið, Samband íslenskra sveitarfélaga, Reykjavíkurborg, Alþýðusamband Íslands, BSRB og Samtök atvinnulífsins. Stór áfangi fyrir félagsmenn „Þetta er auðvitað stór áfangi fyrir okkar félagsmenn og jákvætt að þetta sé nú í höfn,“ segir Elín Björg Jónsdóttir, formaður BSRB. „Ákvæðinu um launaþróunartryggingu er ætlað að tryggja okkar félagsmönnum að laun þeirra muni þróast á sama hátt og laun á almennum vinnumarkaði. Nú hækka launin hjá hluta af okkar fólki eftir fyrstu mælingu en svo verða gerðar tvær mælingar til viðbótar vegna áranna 2017 og 2018 sem geta haft áhrif á launin.“

Við útreikning á launaskriði er litið til þróunar á almenna markaðinum annars vegar og hjá félögum í BSRB hins vegar á tímabilinu frá nóvember 2013 til nóvember 2016. Niðurstöður útreikninga fyrir þetta tímabil sýna að hækka þarf laun félaga í aðildarfélögum BSRB sem starfa hjá ríkinu um að meðaltali 1,3 prósent. Hækkunin er afturvirk og gildir frá 1. janúar 2017. Laun félaga í aðildarfélögum Alþýðusambands Íslands sem starfa hjá ríkinu munu hækka um að meðaltali 1,6 prósent af sömu ástæðu. Mælt aftur fyrir 2017 og 2018.

Laun félagsmanna BSRB sem starfa hjá sveitarfélögum taka ekki breytingum að þessu sinni. Ástæðan er sú að laun starfsmanna sveitarfélaga hafa hækkað meira en laun á almennum vinnumarkaði á árunum 2013 til 2016. Launaþróunin verður mæld áfram og leiðrétt vegna áranna 2017 og 2018, ef tilefni reynist til, þegar þær tölur liggja fyrir.