Tilkynning frá Styrktarsjóði BSRB.

 

Sæl öll

Okkur þætti vænt um að þið kæmuð þeim skilaboðum áleiðis til ykkar félagsmanna að sækja um tímanlega fyrir þá styrki sem er hægt að fá úthlutað árlega. Algengustu styrkirnir sem hægt er að fá úthlutað árlega eru líkamsrækt, sjúkraþjálfun, krabbameinsleit og sálfræðikostnaður. Við viljum fá umsóknir inn eigi síðar en fimmtudaginn 17. desember þetta árið. Að sjálfsögðu verður engum hafnað sem skilar seinna svo framarlega sem það komi fyrir áramót, okkur hefur alltaf tekist að afgreiða það sem hefur komið milli jóla og nýárs til dæmis. Engu að síður er mikilvægt að hafa þetta að leiðarljósi.

Annars viljum við nýta tækifærið og óska ykkur gleðilegra jóla.

Bestu kveðjur

Starfsmenn Styrktarsjóðs BSRB

Desemberuppbót 2020

 

Desemberuppbót fyrir árið 2020 er sem hér segir:

Fyrir starfsmenn Fjallabyggðar og Hornbrekku:  kr.  118.750

Desemberuppbót er greidd 1. desember ár hvert Með fullu starfi er átt við 100% starf tímabilið 1. janúar til 30. nóvember sama ár. Hafi starfsmaður gegnt hlutastarfi eða starfað hluta úr ári, skal hann fá greitt miðað við starfshlutfall og/eða starfstíma, þó þannig að hann hafi starfað samfellt a.m.k. frá 1. september það ár. Starfsmaður sem lætur af störfum á árinu, en hafði þá starfað samfellt í a.m.k. 6 mánuði, skal einnig fá greidda persónuuppbót miðað við starfstíma og starfshlutfall á árinu. Hlutfall skv. þessari málsgrein er reiknað sem hlutfall af fullri vinnu (100%) í 12 mánuði á almanaksárinu af síðast gildandi persónuuppbót.

Fyrir ríkisstarfsmenn þ.e. starfsmenn heilsugæslu og MTR: kr. 94.000

Starfsmaður sem er við störf í fyrstu viku nóvembermánaðar skal fá greidda persónuuppbót 1. desember ár hvert miðað við fullt starf tímabilið 1. janúar til 31. október. Persónuuppbót er föst krónutala og tekur ekki hækkunum skv. öðrum ákvæðum kjarasamningsins. Á uppbótina reiknast ekki orlofsfé. Hafi starfsmaðurinn gegnt hlutastarfi eða unnið hluta úr ári, skal hann fá greitt miðað við starfshlutfall á framangreindu tímabili. 

Á sama hátt skal einnig starfsmaður sem látið hefur af starfi en starfað hefur samfellt í a.m.k. 3 mánuði (13 vikur) á árinu, fá greidda uppbót í desember, miðað við starfstíma og starfshlutfall. Sama gildir þótt starfsmaður sé frá störfum vegna veikinda eftir að greiðsluskyldu stofnunar lýkur eða í allt að 6 mánuði vegna fæðingarorlofs.

 

Stytting vinnuvikunar.

 

Ágætu félagsmenn

Undir flýtileiðum hér til hægri á síðunni er hlekkur sem heitir Stytting vinnuvikunar.

Þar er fjallað ítarlega um styttingu vinnuvikunnar á vinnustöðum þar sem unnið er í dagvinnu. Fyrsta skrefið í ferlinu er  að stofna vinnutímanefnd með fulltrúum starfsfólks og stjórnenda á hverjum vinnustað sem undirbýr breytinguna og leiðir samtalið á vinnustaðnum.

Stytting vinnuvikunnar er eitt stærsta viðfangsefni BSRB og aðildarfélaga þess. Á einhverjum vinnustöðum er samtalið þegar hafið og á öðrum hefst það á næstunni.  Mikilvægt er að áður en sú vinna fer af stað að fólk hafi sem besta yfirsýn og upplýsingar um verkefnið.

Aðildarfélög BSRB munu standa með misjöfnum hætti að kynningu og undirbúningi til sinna félaga en á sameiginlegu borði BSRB er unnið að kynningarefni sem verður birt hér á þessum stað um leið og það kemur.

Samkvæmt nýlegum kjarasamning er gert ráð fyrir að nýtt fyrirkomulag vinnutíma í dagvinnu taki gildi eigi síðar en 1. janúar 2021 og í vaktavinnu 1. maí 2021.

Sameiginlegt verkefni okkar allra og vinnustaðanna er að ná samkomulagi um breytt skipulag vinnutíma og styttingu vinnuvikunnar niður í 36 stundir, það er til mikils að vinna í þessu tímamóta umbótarverkefni.  

Með baráttu kveðju,

Guðbjörn Arngrímsson

Formaður St. Fjallabyggðar.