Orlofsblað Samflots 2017

 

Orlofsblað Samflots er komið í prentun og mun væntanlega berast félagsmönnum á fyrstu dögum næstu viku.

Ástæða þess að blaðið kemur svona seint eru kaup félagnna sem standa að orlofspakkanum á orlofshúsi í Bláskógarbyggð á Suðurlandi.

Opnað verður fyrir orlofsvefinn 6. apríl og úthlutað fyrir tímabilið 26. maí - 15. sept. þann 18. apríl. Vefurinn opnar síðan fyrir "fyrstur kemur, fyrstur fær" þann 23. apríl.

Þeir félagsmenn sem ekki fá blaðið í næstu viku eru beðnir að láta vita á skrifstofum aðildarfélaganna eða til formanns Samflots, Guðbjörns, í síma 899-6213

Svo vonum við að blaðið standi undir væntingum um glæsilegt orlofstímabil hjá félagsmönnum aðildarfélaga orlofspakka Samflots.

Orlofsblaðið má sjá hér hægra megin undir Orlofsblað

F.h. orlofsnefndar samflots

Guðbjörn Arngrímsson

S: 899-6213

 

 

Breytingar á skattkerfi óheillaskref.

Breytingar á skattkerfinu sem tóku gildi um áramót voru óheillaskref sem mun annað hvort leiða til skertrar þjónustu eða aukinna álagna á tekjulægri hópa skrifar Árni Stefán Jónsson, 1. varaformaður BSRB og formaður nefndar um vinnumarkað, kjaramál og lífeyrismál í aðsendri grein sem birtist í Fréttablaðinu í dag.

Í grein sinni fer Árni Stefán yfir áherslur BSRB í skattamálum og fækkun á skattþrepum í tekjuskattskerfinu úr þremur í tvö. „Allt tal um einföldun á kerfinu og „lækkun á flækjustigi“ er aðeins yfirvarp fyrir lækkun á álögum á hina tekjumeiri. Það sem gerist með fækkun skattþrepa er að skattbyrðin er færð á milli hópa. Hærra hlutfall af tekjum ríkissjóðs af tekjuskatti kemur frá þeim sem hafa minnst á milli handanna. Við það er ekki hægt að búa,“ skrifar Árni Stefán.

„Einnig er augljóst að breytingarnar hafa það í för með sér að tekjur ríkissjóðs lækka á tímum þegar almenningur kallar eftir því að velferðarkerfið sé byggt upp að nýju. Það á enn frekar við nú um áramótin þegar skatthlutfallið var lækkað samhliða því að miðjuskattþrepið var fellt út. Þetta er augljóslega röng forgangsröðun,“ skrifar hann ennfremur.

Grein Árna Stefáns má lesa á vef Vísis .

 

Stjórnvöld standist þrýsting um að einkavæða.

BSRB varar stjórnvöld við því að láta undan þrýstingi þeirra sem vilja einkavæða enn frekar í heilbrigðiskerfinu í andstöðu við vilja mikils meirihluta þjóðarinnar. Byggja á upp heilbrigðiskerfi sem er rekið á réttlátan hátt af hinu opinbera fyrir skattfé landsmanna þar sem allir hafa jafnan aðgang að fyrsta flokks þjónustu.

Það er fagnaðarefni að til standi að byggja upp að nýju íslenska heilbrigðiskerfið, sem er mjög laskað eftir niðurskurð sem byrjaði löngu fyrir bankahrunið 2008. Almenningur kallar eftir því að kerfið verði bætt sem fyrst, og við því eiga stjórnvöld að bregðast. Þar verður að hugsa alla uppbyggingu til langs tíma og vinna að því að byggja upp fyrsta flokks heilbrigðiskerfi.

Skattgreiðslur ekki í vasa fjárfesta

Rannsóknir sýna að ríflega fjórir af hverjum fimm landsmönnum telja að rekstri heilbrigðiskerfisins sé best fyrir komið hjá hinu opinbera. Undanfarið hefur verið mikill þrýstingur frá einkafyrirtækjum á að sífellt fleiri hlutar heilbrigðiskerfisins verði einkavæddir. Þann þrýsting verður heilbrigðisráðherra að standast.

Það er ekki rétta leiðin til að stytta biðlista að greiða fyrirtækjum sem rekin eru í hagnaðarskyni fyrir að framkvæma aðgerðirnar. Einkarekin fyrirtæki eru ekki góðgerðarsamtök. Það kostar peninga að byggja upp aðstöðu og ráða starfsfólk. Þeir sem setja peninga í slíkt verkefni vilja ávaxta sitt pund. BSRB leggst alfarið gegn því að skattgreiðslur almennings renni í vasa fjárfesta með hvers konar markaðsvæðingu á heilbrigðisþjónustu.

Skorað á heilbrigðisráðherra

Þá verða stjórnvöld einnig að líta til þess að þegar heilbrigðisþjónustan er veitt af einkaaðilum er mun erfiðara fyrir stjórnvöld að móta stefnu fyrir heilbrigðiskerfið í heild sinni. Með aukinni einkavæðingu í heilbrigðiskerfinu er dregið úr möguleikum stjórnvalda til að taka stefnumótandi ákvarðanir um forgangsröðun og skipulag kerfisins í þágu almannahagsmuna.

BSRB skorar á heilbrigðisráðherra að standa vörð um heilbrigðiskerfið og fara að þjóðarvilja með því að halda heilbrigðisþjónustunni í opinberum rekstri.

 

Til baka