Átaki í fæðingarorlofsmálum.

 

BSRB og ASÍ standa sameiginlega að átaki í fæðingarorlofsmálum, sem hófst formlega á miðvikudag. Með átakinu vilja þau koma fæðingarorlofsmálunum inn í umræðuna í komandi kosningum.

Kröfur BSRB og ASÍ eru einfaldar: Við teljum það forgangsmál að bæta fæðingarorlofskerfið á Íslandi. Við leggjum áherslu á að greiðslur til foreldra verði óskertar að 300 þúsundum, hámarksgreiðslur hækki í 600 þúsund og að orlofið verði lengt í 12 mánuði.

Til að leggja áherslur á kröfuna um betra fæðingarorlof höfum við látið útbúa stutt myndbönd þar sem venjulegt fólk segir sína sögu og sett upp síðuna Betra fæðingarorlof á Facebook. Þar hvetjum við fólk til að segja sína sögu af fæðingarorlofinu og merkja með myllumerkinu #betrafaedingarorlof.

Nú viljum við gjarnan virkja sameiginlega krafta og fá ykkur og ykkar félög til að taka þátt í þessu með okkur. Það getið þið gert með því að dreifa boðskapnum áfram til ykkar félagsmanna, til dæmis í gegnum heimasíður og samfélagsmiðla. Ef þið þekkið fólk sem hefur skoðanir, endilega hvetjið það til að setja þær inn á samfélagsmiðlana, skoða síðuna okkar og segja sína skoðun.

Stjórnir BSRB og ASÍ

Nýtt lífeyriskerfi og jöfnun launa

BSRB hefur ásamt Bandalagi háskólamanna (BHM) og Kennarasambandi Íslands (KÍ) undirritað samkomulag við ríki og sveitarfélög um nýtt lífeyriskerfi. Með þessu samkomulagi er tryggt að allt launafólk í landinu njóti sambærilegra lífeyrisréttinda hvort sem það starfar á opinberum eða almennum vinnumarkaði. Réttindi núverandi sjóðsfélaga haldast óbreytt, auk þess sem ríki og sveitarfélög hafa skuldbundið sig til að leiðrétta launamun milli opinbera vinnumarkaðarins og hins almenna.

Með samkomulaginu hefur lífeyriskerfi opinberra starfsmanna verið fullfjármagnað og verður það hér eftir sjálfbært. Til að svo megi verða leggja ríki og sveitarfélög samtals um 120 milljarða króna í sérstaka lífeyrisaukasjóði. Legið hefur fyrir lengi að fyrirkomulag lífeyrismála opinberra starfsmanna væri ósjálfbært og því ljóst að óbreytt ástand gæti ekki gengið áfram.

 

Aðalfundi frestað.

 

Af óviðráðanlegum ástæðum er aðalfundi félagsins frestað til haustsins.

Nánari upplýsingar verða sendar út síðar.

 

f.h. stjórnar St. Fjallabyggðar

Guðbjörn Arngrímsson

formaður