Gleðilegan 1. maí

Ágætu félagsmenn.

Annað árið í röð og í annað skiptið síðan 1923 getur íslenskt launafólk ekki safnast saman á 1. maí til að leggja áherslu á kröfur sínar. Líkt og í fyrra er brugðist við þessari stöðu með útsendingu frá sérstakri skemmti- og baráttusamkomu sem verður sjónvarpað á RÚV að kvöldi 1. maí klukkan 21:00.

Landsþekktir tónlistarmenn, skemmtiatriði og hugleiðingar launafólks víða af á landinu einkenna þáttinn. Meðal listamanna sem koma fram eru Emilíana Torrini og vinir, Margrét Rán og félagar, Fjallabræður, Skoffín, Moses Hightower, Jakob Birgisson uppistandari og Öreigarnir (blásarasveit Samma og Co).

Það er nóg til er yfirskrift 1. maí að þessu sinni. „Það er nóg til“ er orðatiltæki sem flestir Íslendingar þekkja og nota gjarnan þegar gest ber að garði. Fólki er boðið að njóta veitinga með viðkvæðinu „fáðu þér, það er nóg til“. En undirliggjandi meining er ekki síður „ekki vera feimin við að fá ykkur, við viljum deila með ykkur“.

Afkoma samfélagsins á Íslandi á fyrri hluta 21. aldarinnar er þrátt fyrir allt með því besta sem þekkist í sögunni. Við búum í landi sem er ríkt af auðlindum – bæði af hendi náttúrunnar og mannauði. Með góðum vilja og réttum ákvörðunum getum við öll notið mannsæmandi lífskjara á Íslandi. Það er nóg til!

Þar sem engar verða kröfugöngurnar verður hægt að sýna stuðning sinn við baráttu verkalýðshreyfingarinnar í verki með því að merkja prófílmyndina sína á Facebook 1. maí. Við hvetjum til þátttöku í baráttudeginum á Facebook og svo til áhorfs á RÚV um kvöldið.

Að dagskránni í Sjónvarpinu og viðburðum á samfélagsmiðlum standa eftirfarandi heildarsamtök launafólks: ASÍ, BHM, BSRB og KÍ.

Hér má sjá ávarp Sonju Ýr Þorbergsdóttur formanns BSRB

 

Sameiningarviðræður

 

Ágætu félagar í St. Fjallabyggðar

Á síðasta aðalfundi St. Fjallabyggðar var lögð fram og samþykkt tillaga um að fela stjórn félagsins að skoða möguleika á sameiningu við önnur stéttarfélög innan BSRB.

Stjórnin hefur síðan verið að skoða málin og ræða við önnur félög innan Samflots bæjarstarfsmannafélaga og niðurstaða þeirra viðræðna leiddi til þess að samþykkt var á síðasta stjórnarfundi að ræða við Kjöl stéttarfélag starfsmanna í almannaþjónustu, ásamt 4 öðrum aðildarfélögum innan Samflotsins, um sameiningu.

Aðildarfélögin sem verða með okkur í viðræðunum eru; STAF og FOSA á Austurlandi, SDS á Vesturlandi og FOS-vest. á Vestfjörðum. Tvö önnur aðildarfélög eru innan Samflotsins og höfðu þau ekki áhuga á að koma með í viðræðurnar, þau eru STAVEY og St. Húsavík.

Forsvarsmenn Kjalar hafa boðið okkur að koma til fundar við þau á Akureyri 26. apríl. Hvað sá fundur og eflaust nokkrir fundir eftir hann, koma til með að færa okkur verður tíminn að leiða í ljós. En eitt er alveg víst að ekkert verður ákveðið nema með ykkar aðkomu og samþykki, ágætu félagar.

Ef til þessarar sameiningar kæmi, yrði félagafjöldinn um 2.200 manns og næði félagssvæði Kjalar um allt land nema Suðurlandið.

Það er trú okkar sem förum saman til þessarar viðræðna að með þeim muni samtakamátturinn koma til með að efla og styrkja okkar kjara- og réttindabaráttu komandi ára í krafti fjöldans og stærðar.

Við komum líka til með að senda á ykkur upplýsingar af viðræðunum eins og hægt er og á aðalfundi félagsins í haust muni fundarmenn geta tekið upplýsta ákvörðun um það hvort gengið verði til sameiningar við Kjöl eða ekki. Ákvörðunin er ykkar fyrst og fremst.  Ef þú ágæti félagi vilt koma þinni skoðun eða hugmyndum til stjórnar fyrir fyrsta sameiningarviðræðufundinn á Akureyri og/eða seinna, vinsamlegast sendu okkur línu á netfangið okkar; stol@stol.is 

 

F.h. stjórnar St. Fjallabyggðar

Guðbjörn Arngrímsson

formaður

Úthlutun fyrir sumarorlofstímabilið lokið.

 

Ágætu félagsmenn

Nú er lokið úthlutun fyrir sumarorlofstímabilið og tölvupóstur sendur á umsækjendur hvort sem þeir fengu eða ekki.  Alls sóttu 77 um og úthlutað var 51 viku.

Félagsmenn sem fengu úthlutað hafa til 5. apríl að greiða sína. Eftir að greiðslufrestur er liðinn verður húsinu/íbúðinni úthlutað til annarra hafi greiðsla ekki borist.

Geti einhver ekki nýtt sér þessa úthlutun er sá hinn sami vinsamlegast beðinn að tilkynna það með tölvupósti á samflot@samflot.is eða í síma 899-6213 sem allra fyrst svo hægt verði að lofa öðrum sem sóttu um en fengu ekki, að njóta.

Orlofsvefurinn verður svo opnaður að nýju 9. apríl og gildir þá reglan „fyrstur kemur, fyrstur fær“

Hafi einhver sem les þetta og sótti um ekki fengið tölvupóst, er hann vinsamlega beðinn að hafa samband við formann í síma 899-6213

F.h. stjórnar orlofssjóðs Samflots,

Guðbjörn Arngrímsson