Sonja Ýr endurkjörin formaður á 46. þingi BSRB

Sonja Ýr Þorbergsdóttir var endurkjörin formaður BSRB á 46. þingi bandalagsins.
Sonja Ýr Þorbergsdóttir var endurkjörin formaður BSRB á 46. þingi bandalagsins.

 

Sonja Ýr Þorbergsdóttir var í dag endurkjörin formaður BSRB til næstu þriggja ára á 46. þingi BSRB með 97,22 prósent greiddra atkvæða. Þingið, sem nú er nýlokið, var rafrænt vegna sóttvarnaraðgerða þegar það var boðað og var allri málefnavinnu sem til stóð að fara í á þinginu frestað þar til á framhaldsþingi.

Sonja var ein í framboði til formanns, en hún var fyrst kjörin formaður bandalagsins á 45. þingi BSRB í október 2018. Á þinginu var Þórarinn Eyfjörð, formaður Sameykis, kjörinn í embætti 1. varaformanns BSRB. Þá var Arna Jakobína Björnsdóttir, formaður Kjalar stéttarfélags í almannaþjónustu, endurkjörin í embætti 2. varaformanns BSRB.

„Nú þegar við virðumst loksins farin að sjá fyrir endann á faraldrinum þurfum við að horfa til framtíðar. Við höfum einstakt tækifæri til að móta það samfélag sem við viljum búa í eftir kófið og við eigum að grípa það tækifæri. Við vitum ekki enn hvaða ríkisstjórn mun taka við eftir kosningarnar en sjáum öll að það eru stór verkefni sem bíða,“ sagði Sonja þegar hún ávarpaði þingið.

„Eitt af því sem BSRB hefur lagt þunga áherslu á undanfarið er staða þeirra stóru hópa opinberra starfsmanna sem hafa verið í framlínunni í heimsfaraldrinum. Í rúmlega eitt og hálft ár hefur álagið á þennan hóp verið gríðarlegt. Ekki bara í vinnunni heldur líka í einkalífinu þar sem margir hafa lokað sig af til að draga sem mest úr líkum á smiti,“ sagði Sonja.

„Hér erum við að tala um starfsfólk sem starfar í nánum persónulegum samskiptum við fólk á spítölum; hjá heilsugæslunni, við sjúkraflutninga og í velferðarþjónustu við aldraða, fatlaða og sjúka. Við erum líka að tala um starfsfólk almannavarna, lögregluna og fleiri ómissandi hópa. Við getum ekki ætlast til þess að þau standi vaktina endalaust án þess að fá eitthvað á móti. Framlínufólkið á skilið miklu meira en þakklætið eitt og sér og við köllum eftir því að það fái álagsgreiðslur í samræmi við það sem þau hafa lagt á sig til að koma samfélaginu okkar út úr þessum heimsfaraldri.“

„Við þurfum líka að huga að heilsu starfsfólks almannaþjónustunnar, sér í lagi þeirra sem hafa hlaupið sífellt hraðar síðustu mánuði og ár. Við vorum ekki enn búin að jafna okkur eftir harkalegan niðurskurð í kjölfar bankahrunsins 2008 þegar faraldurinn skall á. Nú verðum við að staldra við og hugsa um starfsfólkið, til dæmis með því að skima fyrir kulnun og sjúklegri streitu og bregðast við þegar hættumerki koma í ljós. Það er svo miklu betra og ódýrara en að gera ekki neitt og standa svo allt í einu frammi fyrir því að starfsfólkið hverfur frá störfum í stórum stíl af því það getur einfaldlega ekki meir.“

Starfsmannafélag Fjarðabyggða sameinast Kili.

Fráfarandi stjórn STAF: Björgúlfur formaður (t.v.), Þorgerður, Jóna Katrín, Þórdís, Sigurjón, Sigurborg og Jónína.
Fráfarandi stjórn STAF: Björgúlfur formaður (t.v.), Þorgerður, Jóna Katrín, Þórdís, Sigurjón, Sigurborg og Jónína.

 

Félagar í Starfsmannafélagi Fjarðabyggðar (STAF) samþykktu sameiningu félagsins við Kjöl stéttarfélag starfsmanna í almannaþjónustu á aðalfundi félagsins fimmtudaginn 23. september síðastliðinn.

Kjölur stéttarfélag starfsmanna í almannaþjónustu er eitt af stærstu aðildarfélögum BSRB. Félagið er deildaskipt og í kjölfar sameiningarinnar verður stofnuð STAF-deild innan Kjalar. Aðrar deildir félagsins eru á Dalvík, Siglufirði, Akureyri, í Skagafirði, Húnavatnssýslum og Borgarfirði. Við sameininguna þá tekur Björgúlfur Halldórsson, fráfarandi formaður STAF, sæti í stjórn Kjalar en STAF-deild er tryggt sæti á lista til stjórnar Kjalar stéttarfélags samkvæmt lögum félagsins.

Félagsaldur félagsmanna STAF flyst að fullu til sjóða Kjalar stéttarfélags, orlofssjóðs og starfsmenntasjóðs. Til næstu áramóta verður afgreiðsla styrkja starfsmenntasjóðs og afgreiðsla orlofshúsa STAF með óbreyttu sniði.

Með þessari ákvörðun er hafið sameiningarferli stéttarfélaga sem hefur verið í undirbúningi síðustu mánuði. Fyrir dyrum stendur á næstu vikum hliðstæð sameiningarkosning fjögurra annarra stéttarfélaga á landsbyggðinni við Kjöl stéttarfélag, það er Starfsmannafélags Fjallabyggðar, Starfsmannafélags Dala- og Snæfellsnessýslu, Félags opinberra starfsmanna á Vestfjörðum og Félags opinberra starfsmanna á Austurlandi.

Í lögum Kjalar hefur frá upphafi verið gert ráð fyrir sameiningu við þessi félög. Að auki hafa aðalfundir félagsins ítrekað ályktað um frekari og víðtækari sameiningu við önnur stéttarfélög starfsmanna í almannaþjónustu á landsbyggðinni innan BSRB.

Kosið verður um sameininguna í Starfsmannafélagi Fjallabyggðar á aðalfundi félagsins sem verður haldinn í lok október, nánar um það síðar.

Guðbjörn Arngrímsson

formaður St. Fjall.

 

Tímabundnar ráðningar undantekningin

 
Kjör tímavinnustarfsfólks eru almennt lakari en annars starfsfólks ríkis og sveitarfélaga.

Starfsfólk ríkis eða sveitarfélaga er almennt ráðið til starfa á mánaðarlaunum. Mismunandi getur verið hvort starfshlutfall sé 100 prósent eða lægra, eða hvort um tímabundna eða ótímabundna ráðningu sé að ræða. Almennt má segja að ótímabundin ráðning sé meginreglan og að tímabundnar ráðningar séu eins konar undantekning frá því að fastráða starfsfólk.

Um réttindi tímabundið ráðinna starfsmanna gilda sérstök lög sem tryggja að þeir njóti hvorki hlutfallslega lakari kjara né sæta lakari meðferð en starfsfólk með ótímabundna ráðningu. Þegar starfsfólk er ráðið í tímavinnu er hins vegar staðan önnur, og eru kjör þeirra almennt lakari en starfsfólks sem ráðið er til starfa á mánaðarlaunum. Engin sérstök lög hér á landi tryggja réttindi tímavinnustarfsmanna en um réttindi þeirra er fjallað í kjarasamningum.

Í kjarasamningum BSRB við ríkið og sveitarfélög er fjallað um það hvenær heimilt sé að ráða starfsfólk í tímavinnu. Í kjarasamningi við ríkið er það í eftirfarandi tilvikum:

  1. Nemendum við störf í námshléum.
  2. Starfsmönnum sem ráðnir eru til skamms tíma vegna sérstakra árvissra álagstíma ýmissa stofnana þó ekki lengur en 2 mánuði.
  3. Starfsmönnum sem ráðnir eru til að vinna að sérhæfðum, afmörkuðum verkefnum.
  4. Starfsmönnum sem starfa óreglubundið um lengri eða skemmri tíma þó aðeins í algjörum undantekningartilvikum.
  5. Lífeyrisþegum sem vinna hluta úr starfi.

Í kjarasamningi við sveitarfélög kemur fram sú regla að sé reglubundin vinnuskylda starfsmanns 20 prósent eða meiri á mánuði skuli ráða hann á mánaðarlaun. Sé reglubundin vinnuskylda hans minni eða vinnuskil óregluleg sé heimilt að ráða hann í tímavinnu og einnig ef uppi eru sömu aðstæður og nefndar eru hér að ofan og gilda um ríkisstarfsmenn. Samkvæmt vef Kjara- og mannauðssýslu ríkisins er litið svo á að ráða skuli starfsmann á föst mánaðarlaun þegar hann sinnir að minnsta kosti 1/3 hluta af fullu starfi.

Sjá nánar