Tímabundnar ráðningar undantekningin

 
Kjör tímavinnustarfsfólks eru almennt lakari en annars starfsfólks ríkis og sveitarfélaga.

Starfsfólk ríkis eða sveitarfélaga er almennt ráðið til starfa á mánaðarlaunum. Mismunandi getur verið hvort starfshlutfall sé 100 prósent eða lægra, eða hvort um tímabundna eða ótímabundna ráðningu sé að ræða. Almennt má segja að ótímabundin ráðning sé meginreglan og að tímabundnar ráðningar séu eins konar undantekning frá því að fastráða starfsfólk.

Um réttindi tímabundið ráðinna starfsmanna gilda sérstök lög sem tryggja að þeir njóti hvorki hlutfallslega lakari kjara né sæta lakari meðferð en starfsfólk með ótímabundna ráðningu. Þegar starfsfólk er ráðið í tímavinnu er hins vegar staðan önnur, og eru kjör þeirra almennt lakari en starfsfólks sem ráðið er til starfa á mánaðarlaunum. Engin sérstök lög hér á landi tryggja réttindi tímavinnustarfsmanna en um réttindi þeirra er fjallað í kjarasamningum.

Í kjarasamningum BSRB við ríkið og sveitarfélög er fjallað um það hvenær heimilt sé að ráða starfsfólk í tímavinnu. Í kjarasamningi við ríkið er það í eftirfarandi tilvikum:

  1. Nemendum við störf í námshléum.
  2. Starfsmönnum sem ráðnir eru til skamms tíma vegna sérstakra árvissra álagstíma ýmissa stofnana þó ekki lengur en 2 mánuði.
  3. Starfsmönnum sem ráðnir eru til að vinna að sérhæfðum, afmörkuðum verkefnum.
  4. Starfsmönnum sem starfa óreglubundið um lengri eða skemmri tíma þó aðeins í algjörum undantekningartilvikum.
  5. Lífeyrisþegum sem vinna hluta úr starfi.

Í kjarasamningi við sveitarfélög kemur fram sú regla að sé reglubundin vinnuskylda starfsmanns 20 prósent eða meiri á mánuði skuli ráða hann á mánaðarlaun. Sé reglubundin vinnuskylda hans minni eða vinnuskil óregluleg sé heimilt að ráða hann í tímavinnu og einnig ef uppi eru sömu aðstæður og nefndar eru hér að ofan og gilda um ríkisstarfsmenn. Samkvæmt vef Kjara- og mannauðssýslu ríkisins er litið svo á að ráða skuli starfsmann á föst mánaðarlaun þegar hann sinnir að minnsta kosti 1/3 hluta af fullu starfi.

Sjá nánar