Sameiningarviðræður

 

Ágætu félagar í St. Fjallabyggðar

Á síðasta aðalfundi St. Fjallabyggðar var lögð fram og samþykkt tillaga um að fela stjórn félagsins að skoða möguleika á sameiningu við önnur stéttarfélög innan BSRB.

Stjórnin hefur síðan verið að skoða málin og ræða við önnur félög innan Samflots bæjarstarfsmannafélaga og niðurstaða þeirra viðræðna leiddi til þess að samþykkt var á síðasta stjórnarfundi að ræða við Kjöl stéttarfélag starfsmanna í almannaþjónustu, ásamt 4 öðrum aðildarfélögum innan Samflotsins, um sameiningu.

Aðildarfélögin sem verða með okkur í viðræðunum eru; STAF og FOSA á Austurlandi, SDS á Vesturlandi og FOS-vest. á Vestfjörðum. Tvö önnur aðildarfélög eru innan Samflotsins og höfðu þau ekki áhuga á að koma með í viðræðurnar, þau eru STAVEY og St. Húsavík.

Forsvarsmenn Kjalar hafa boðið okkur að koma til fundar við þau á Akureyri 26. apríl. Hvað sá fundur og eflaust nokkrir fundir eftir hann, koma til með að færa okkur verður tíminn að leiða í ljós. En eitt er alveg víst að ekkert verður ákveðið nema með ykkar aðkomu og samþykki, ágætu félagar.

Ef til þessarar sameiningar kæmi, yrði félagafjöldinn um 2.200 manns og næði félagssvæði Kjalar um allt land nema Suðurlandið.

Það er trú okkar sem förum saman til þessarar viðræðna að með þeim muni samtakamátturinn koma til með að efla og styrkja okkar kjara- og réttindabaráttu komandi ára í krafti fjöldans og stærðar.

Við komum líka til með að senda á ykkur upplýsingar af viðræðunum eins og hægt er og á aðalfundi félagsins í haust muni fundarmenn geta tekið upplýsta ákvörðun um það hvort gengið verði til sameiningar við Kjöl eða ekki. Ákvörðunin er ykkar fyrst og fremst.  Ef þú ágæti félagi vilt koma þinni skoðun eða hugmyndum til stjórnar fyrir fyrsta sameiningarviðræðufundinn á Akureyri og/eða seinna, vinsamlegast sendu okkur línu á netfangið okkar; stol@stol.is 

 

F.h. stjórnar St. Fjallabyggðar

Guðbjörn Arngrímsson

formaður