Breytingar á skattkerfi óheillaskref.

Breytingar á skattkerfinu sem tóku gildi um áramót voru óheillaskref sem mun annað hvort leiða til skertrar þjónustu eða aukinna álagna á tekjulægri hópa skrifar Árni Stefán Jónsson, 1. varaformaður BSRB og formaður nefndar um vinnumarkað, kjaramál og lífeyrismál í aðsendri grein sem birtist í Fréttablaðinu í dag.

Í grein sinni fer Árni Stefán yfir áherslur BSRB í skattamálum og fækkun á skattþrepum í tekjuskattskerfinu úr þremur í tvö. „Allt tal um einföldun á kerfinu og „lækkun á flækjustigi“ er aðeins yfirvarp fyrir lækkun á álögum á hina tekjumeiri. Það sem gerist með fækkun skattþrepa er að skattbyrðin er færð á milli hópa. Hærra hlutfall af tekjum ríkissjóðs af tekjuskatti kemur frá þeim sem hafa minnst á milli handanna. Við það er ekki hægt að búa,“ skrifar Árni Stefán.

„Einnig er augljóst að breytingarnar hafa það í för með sér að tekjur ríkissjóðs lækka á tímum þegar almenningur kallar eftir því að velferðarkerfið sé byggt upp að nýju. Það á enn frekar við nú um áramótin þegar skatthlutfallið var lækkað samhliða því að miðjuskattþrepið var fellt út. Þetta er augljóslega röng forgangsröðun,“ skrifar hann ennfremur.

Grein Árna Stefáns má lesa á vef Vísis .