Áramótapistill formanns BSRB

Um áramót er við hæfi að líta yfir farinn veg og hugleiða framtíðina. Árið hefur verið viðburðaríkt hjá BSRB og vil ég þakka öllum þeim sem hafa komið að störfum bandalagsins hjartanlega fyrir þeirra framlag. Árið hefur um margt verið erfitt fyrir aðildarfélög bandalagsins og félagsmenn þeirra - enn eitt ár niðurskurðar og sparnaðar. Þótt hollt sé að líta um öxl tel ég þó mikilvægara að horfa til framtíðar.

Ýmislegt bendir til að bjartari tímar séu framundan á Íslandi þótt allri óvissu hafi ekki verið eytt. Eftir nokkur samfelld niðurskurðarár hefur verið skorið svo við nögl að ekki verður lengra komist án þess að gagnger breyting á uppbyggingu samfélags verði á Íslandi. Breytingu sem ég tel engan vilja sjá verða að veruleika.

Hugmyndin með okkar samfélagsgerð er að atvinnulífið knýr samfélagið. Hér á opinber rekstur að geta starfað við hlið öflugs einkageira án árekstra. Mönnum er frjálst að hagnast og greiða há laun um leið og þeir takast á við þær skyldur sínar að greiða háa skatta. Þessa skatta nýtum við sameiginlega til að reka velferðarkerfi sem tryggir öllum menntun, umönnun og lágmarks afkomu. Velferð stuðlar að jöfnuði og betra samfélagi sem skilar sér í framförum þannig að næsta kynslóðin geti haft það aðeins betra en kynslóðin á undan.

Brýnasta verkefni samtímans er að koma atvinnumálunum í rétt horf. Við getum ekki lengur haldið áfram á braut uppsagna og samdráttar. Það er staðreynd að hér vantar störf og þessi störf þurfa jafnframt að vera til framtíðar. Við verðum að horfa á stóru myndina í þessu sambandi líta fram á veginn því með háu atvinnustigi aukast skatttekjurnar sem er grundvöllur þess að halda uppi öruggu velferðarkerfi.

Þrátt fyrir áföll og erfiðleika erum við ein ríkasta þjóð heims.Við eigum að búa vel að eldri borgurum landsins. Við eigum að hjúkra sjúkum um leið og veikinda verður vart. Við eigum að bjóða foreldrum upp á fæðingarorlof sem tryggir í raun samvistir foreldra og ungra barna og öllum börnum verði upp á dagvistun gegn sanngjörnu endurgjaldi að því loknu. Tíma biðlista, lokana og hárra greiðslna foreldra vegna dagvistunar verður að ljúka og því vona ég að árið 2012 verði ár þar sem við snúum þróuninni við. Húsnæðismálum landsmanna verður að koma í rétt horf. Hugmyndum BSRB um eflingu almenns leigumarkaðar hefur verið vel tekið og er það von mín að á nýju ári munum við sjá hluta þeirra hugmynda koma til framkvæmda. Nýleg könnun sýnir að þörfin fyrir leiguhúsnæði er mun meiri en nokkurn hafði grunað og við því verður að bregðast til að hægt sé að tryggja öllum viðeigandi húsnæði til langframa á sanngjörnu verði.

Fyrst eftir efnahagshrunið virtist sem að launajöfnuður í samfélaginu væri að aukast. Margir bentu á að sú staða sem kom upp við hrunið væri tilvalið tækifæri til að auka jöfnuð í samfélaginu. Sú göfuga hugsjón má ekki falla í gleymsku eins og virðist stefna að því nýlegar tölur sýna að ójöfnuður er aftur farinn að aukast. Óútskýrður launamunur kynjanna hækkaði á milli ára og mældist nýlega rúmlega 13% sem er með öllu óásættanlegt. Þessu verðum við að sporna við því jöfn laun fyrir jafnverðmæt störf eiga að vera sjálfsagt réttlætismál.

Á nýju ári verðum við að snúa vörn í sókn, hugsa til framtíðar og byggja upp réttlát þjóðfélag þar sem samábyrgð og jöfnuður er hafður að leiðarljósi. Við verðum að verja velferðina enda skilar öflugt velferðarkerfi meiru en það tekur. Öflugt velferðarkerfi er allra hagur.

Elín Björg Jónsdóttir, formaður BSRB