43. þing BSRB

43. þing BSRB er ný afstaðið. Þingið var haldið á Hilton Nordica hótelinu í Reykjavík. Elín Björg Jónsdóttir, formaður BSRB, setti þingið og Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra ávarpaði þingheim. Eftir hádegi tóku hefðbundin þingstörf við og stóðu fram á föstudag þegar kosið var í embætti bandslagsins.

Yfirskrift þingsins var „Framtíð byggð á jöfnuði og velferð" en þing BSRB er haldið þriðja hvert ár og þar er stefna bandalagsins til næstu þriggja ára mótuð af þingfulltrúum sem eru um 260 talsins og koma úr hinum ólíku aðildarfélögum BSRB.

Elín Björg Jónsdóttir, sem gegnt hefur embætti formanns BSRB síðan 2009, var endurkjörin formaður. Hlaut hún 212 atkvæði af þeim 227 sem greiddu atkvæði. Einnig var kosið til framkvæmdanefndar BSRB. Árni Stefán Jónsson var endurkjörin fyrsti varaformaður og Garðar Hilmarsson annar varaformaður. Kristín Á. Guðmundsdóttir hlaut kosningu til áframhaldandi starfa sem ritari BSRB.

Þá var Snorri Magnússon, formaður Landsambands lögreglumanna, kjörin gjaldkeri. Snorri hlaut 156 atkvæði en mótframbjóðandi hans, Jófríður Hanna Sigfúsdóttir, formaður Starfsmannafélags Kópavogs, fékk 67 atkvæði. Auðir seðlar voru 2 en alls voru 243 á kjörskrá, þar af greiddu 225 atkvæði.

Snorri kemur nýr inn í framkvæmdanefnd bandalagsins í stað Þuríðar Einarsdóttur, formanns Póstmannafélags Íslands,  sem gaf ekki kost á sér til áframhaldandi starfa í framkvæmdanefnd BSRB. Þuríður hefur átt sæti í framkvæmdanefnd BSRB frá árinu 2006 og þakkar stjórn BSRB henni kærlega fyrir unnin störf í þágu bandalagsins.

Ofantaldir skipa því framkvæmdanefnd BSRB til næstu þriggja ára.

Sjá nánar á bsrb.is