1. maí 2012 - Hið órofa afl samstöðunnar

Sú skoðun var býsna hávær í miðju góðærinu að verkalýðsfélög væru úrelt. Málsmetandi fólk talaði fyrir einstaklingshyggjunni og baráttudagur verkalýðsins, 1. maí, átti undir högg að sækja. Áherslan skyldi vera á skemmtanagildið, barátta og samhugur var í hugum þessa fólks hluti hins liðna.

Sagan sýnir að samtakamáttur launamanna er aflið sem þarf til að knýja fram samfélagslegar breytingar, viðhalda félagslegum réttindum og sækja á um efnahagslegar umbætur. Það var samtakamáttur launafólks sem bjó til velferðarkerfið, kom á fót almannatryggingum, nýju fæðingarorlofskerfi og lífeyriskerfi.

Efnahagskreppan hefur sýnt að nú, sem aldrei fyrr, er þörf á að launafólk sýni samtakamátt sinn í verki. Hart er sótt að réttindum, kaupmáttur hefur rýrnað og sjálft fjöregg þjóðarinnar, velferðarkerfið, liggur undir árásum. Launamenn þurfa að taka höndum saman hvar í flokk sem þeir skipa sér og standa vörð um velferðina. Innan velferðarkerfisins starfar fólk af holdi og blóð sem sinnir samfélagslega mikilvægum verkum. Velferðarkerfið er líka öryggisnetið sem á að grípa okkur þegar á þarf að halda. Sé of mikið skorið niður í velferðarkerfinu verður öryggisnetið gisið og við föllum í gegnum möskvana. Gisið net er hægt að bæta, en sé það of tætt verður það aldrei jafn þéttriðið á ný, sama hve oft er bætt. Eins er með velferðarkerfið; sé skorið of mikið niður í því er unninn á því skaði sem ekki verður bættur, þótt aukið fjárframlag fáist síðar meir. Efnahagskreppan hefur leitt til þess að hugsa þarf hlutina upp á nýtt.  

Íslendingar verða að svara því hvernig samfélagsgerð þeir vilja búa við. Ég er ekki í nokkrum vafa um að svarið liggur í samfélagi jafnaðar og réttlætis, samfélagi þar sem lífsgæðunum er útdeilt til allra, samfélagi samhjálpar og samábyrgðar. Hlutverk BSRB er að leggja sitt lóð á vogarskálarnar til að slíkt samfélag verði að veruleika. Velferðarkerfið er grunnurinn að slíku samfélagi. Brýnt er að útrýma því atvinnuleysi sem nú herjar á þjóðina. Það er ólíðandi að fjöldi fólks skuli vera atvinnulaus langtímum saman og því ástandi verður að breyta. Við þær aðgerðir verður hins vegar að huga að kvennastörfum jafnt sem karlastörfum og atvinnuuppbyggingin má ekki einungis beinast að þeim síðarnefndu.

Alþjóðlegur baráttudagur verkalýðsins er dagur samstöðunnar; dagurinn þegar við minnumst unninna sigra og brýnum okkur fyrir baráttuna framundan. Mikið verk er fyrir höndum en sagan sýnir að samstaða launamanna er órjúfandi afl þegar á þarf að halda.

Elín Björg Jónsdóttir,
Formaður BSRB